Í náttúrunni gildir oft að því fallegra sem eitthvað er, því varasamara er það. Sem dæmi eru litríkustu dýrin, pöddurnar og blómin næstum alltaf þau eitruðustu. Þessu er svipað farið í geimnum. Á nýju myndinni hér fyrir ofan sést bleikglóandi gasbóla fyrir framan stjörnur í bakgrunni. Þetta er fallegt ský sem er hættulegt — frá því stafar mikið magn af orkuríkri geislun!
Gas- og rykskýið á myndinni er kallað „Risabóla“. Risabólur sjáum við á stöðum þar sem mjög margar stórar og þungar stjörnur hafa myndast tiltölulega nýlega. Þessar barnungu massamiklu stjörnur blása sterkum vindum og lifa hratt og deyja ungar. Ævin líður fljótt en að lokum enda þær sem öflugar sprengistjörnur. Sprengingarnar hafa þanið skýið út og skilið eftir hring úr gasi og ryki.
Ringulreiðin í risakúlum nær langt út fyrir skýið sjálft á formi hættulegrar röntgengeislunar. Vísindamenn hafa fundið út að frá þessu tiltekna skýi kemur 20 sinnum meira af orkuríkri geislun en þeir áttu von á! Þetta er því dæmi um nokkuð sem er fagurt en hættulegt! Ráðlegging mín er sú: Njóttu þessara fallegu fyrirbæra úr öruggri fjarlægð!
Fróðleg staðreynd
Þessa tilteknu risabólu er að finna í nálægri dvergvetrarbraut sem kallast Stóra Magellansskýið. Já, það er rétt, dvergvetrarbrautir eru pínulitlar vetrarbrautir, sú smæsta er 20 milljón sinnum minni en Vetrarbrautin okkar!
More information
Þessi frétt Space Scoop er byggð á fréttatilkynningu frá Chandra röntgengeimsjónauka NASA.
Share: