Í júlí 2013 höfðu fundist yfir 800 reikistjörnur á sveimi um aðrar fjarlægar sólir. Af þeim eru flestar af gerð sem við köllum „heita gasrisa“. Slíkar reikistjörnur eru risavaxnar, úr gasi og mjög nálægt sínum móðurstjörnum. Þú myndir sennilega ekki vilja heimsækja heitan gasrisa því hitastigið á þeim getur farið upp fyrir 1.000°C!
Þetta þýðir samt ekki að leit okkar að lífi í alheiminum og áhugaverðum nýjum hnöttum sé lokið! Ástæða þess að við vitum um svona margar sjóðandi heitar reikistjörnur er sú að auðveldast er að finna þær — að minnsta kosti í samanburði við litlar bergreikistjörnur.
Reikistjörnur handan okkar sólkerfis eru kallaðar fjarreikistjörnur. Mjög erfitt er að ná myndum af þeim. Það er svipað erfitt og að taka mynd af mýflugu á sveimi um skæran en mjög fjarlægan ljósastaur. Stjörnufræðingar verða því að beita ýmsum aðferðum til að finna þær án þess að sjá þær beint. Nú hafa japanskir stjörnufræðingar náð mynd af nýrri reikistjörnu, þeirri smæstu sem náðst hefur á mynd hingað til! Hún er þrisvar sinnum stærri en Júpíter, stærsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar.
Reikistjarnan nýfundna er lengra frá sinni móðurstjörnu en Plútó er frá sólinni okkar. Það þýðir að menn hefðu aldrei komið auga á hana með öðrum aðferðum, aðferðum sem krefjast þess að reikistjarnan sjáist hringsóla að minnsta kosti einu sinni um móðurstjörnuna. Fyrst reikistjarnan er lengra frá sinni stjörnu en Plútó er frá sólinni, hefðum við þurft að bíða í mjög langan tíma eftir því! Aðeins var hægt að finna reikistjörnuna með því að taka mynd af henni.
Fróðleg staðreynd
Ef þú gætir ferðast til þessarar reikistjörnu, sæirðu hnött sem væri enn glóandi heitur eftir fæðingu sína. Reikistjarnan er blárauð á litinn.
Share: